Ruth Hermanns, fiðluleikari

RUTH HERMANNS

Æviágrip Ruthar Hermanns, fiðluleikara

Skráð hefur Rut Ingólfsdóttir, fiðluleikari,  í mars 2022.

Ruth Stefanie Hermanns fæddist í Hamborg í Þýskalandi þ. 11. ágúst 1913. Foreldrar hennar voru Hans Hermanns, píanóleikari og stofnandi Hamburger Klavier-Akademie í Hamborg, og Friede Emma Hermanns, f. Voget, fiðluleikari í Hamborg. Ruth gekk í stúlknaskóla og sótti einkatíma í fiðluleik hjá fiðluleikara í Fílharmóníusveit Hamborgar og síðar hjá Betty Schwabe og Georg Kulenkampff. Áður en Ruth fluttist til Íslands hafði hún haldið marga tónleika í Evrópu m.a. í stórborgum Rússlands, Póllands og Frakklands og víða um Þýskaland. Kveðjutónleikar hennar voru með Kammerhljómsveit Hamborgar í Stóru tónleikahöllinni, Muzikhalle, í Hamborg þ. 10. janúar 1948 og var þeim útvarpað hjá BFN (The British Forces network) í Hamborg. Á þessum tónleikum og tvennum öðrum í sama mánuði lék Ruth  Fiðlukonsert í g-moll eftir Max Bruch. Þann konsert hafði hún einnig leikið í tveimur borgum í Þýskalandi 1937 og 1938.
Ruth var 34 ára gömul þegar hún var ráðin til Íslands, í febrúar 1948, sem fiðlukennari og fiðluleikari á Akureyri. Það var fyrir áeggjan Hermínu Sigurgeirsdóttur, píanóleikara og kennara, sem stundað hafði nám hjá föður Ruthar í Hamborg.
Ruth hélt fyrstu tónleika sína á Íslandi með Árna Kristjánssyni í Reykjavík í febrúar 1948, þá nýkomin til landsins, og á Akureyri um páskana 1948. Ruth hélt einnig tónleika á Akureyri og í nærsveitum með Wilhelm Lansky-Otto haustið 1948. Þau léku á Húsavík, Siglufirði, Sauðárkróki og á Akureyri.
Um tónleika Ruthar og  Árna Kristjánssonar á vegum Tónlistarfélagsins í Reykjavík þ. 19. febrúar 1948,  skrifar Þ. í Þjóðviljann:
„Fiðlutónleikar frú Hermanns sem eru sjöundu tónleikar Tónlistarfélagsins fyrir styrktarfélaga á þessu starfsári, hófust kl. 7 á fimmtudagskvöld í Austurbæjarbíói. Var hvert sæti skipað í salnum, enda var hér fagnað góðum gesti, sem hingað er kominn til ársdvalar og er ráðinn kennari við Tónlistarskóla Akureyrar. Efnisskráin var ekki af verri endanum, þótt tilbreytni hefði verið í einu tuttugustu aldar verki eða svo. Tónleikarnir hófust með D-dúr sónötu Händels með hinum fagra Larghettó-kafla.
Þá Chaconna Bachs, þessi töfraheimur erfiðustu strengjagripa, sem alltaf vekur furðu manns yfir því, hvað þetta litla hljóðfæri, fiðlan er í rauninni stórt – enda er hún þar ein um hituna. Í hinni afarfögru og rómantísku A-dúr-sónötu Césars Franck lét slagharpan aftur heldur betur til sín heyra. Samleikur þeirra frúarinnar og Árna Kristjánssonar var með ágætum. Tónleikunum lauk með Fiðlukonsert Mendelsohns í e-moll.
Frú Ruth Hermanns er mjög góður fiðluleikari, tónn hennar er kynjamjúkur og blæfagur. Hún hefur kvatt sér hljóðs hér á landi með þeim hætti, að marga mun fýsa að njóta listar hennar sem oftast. Þ.“

Tónlistarfélag Akureyrar sem stóð að stofnun Tónlistarskólans á Akureyri 1946 bauð, eftir komu Ruthar, ókeypis kennslu í fiðluleik fyrir börn 10-16 ára að aldri. Tónlistarskólinn átti nokkrar fiðlur en einnig var auglýst eftir fiðlum sem ekki voru í notkun. Kennslan fór fram í einkatímum og samæfingum fyrir þá sem tóku þátt.

Árið 1950 flutti Ruth til Reykjavíkur því hún var ráðin til Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem hélt fyrstu tónleika sína í Austurbæjarbíói 9. mars það ár og hafði síðan aðsetur í Þjóðleikhúsinu eftir að það var opnað á sumardaginn fyrsta þá um vorið.
Ruth hélt tónleika með Páli Ísólfssyni í Dómkirkjunni þ. 19. apríl 1950 og á vegum Tónlistarfélagsins í Reykjavík í Nýja bíói þ. 21. maí sama ár þar sem dr. Victor Urbancic lék með henni á píanó. Ruth og dr. Urbancic endurtóku tónleikana í Nýja bíói á Akureyri í lok maí. Á efnisskránni voru m.a. Adagio og fúga úr Sónötu í G-dúr eftir Bach, Sónata op. 96 í G-dúr eftir Beethoven auk smálaga í útsetningum Kreislers. Þau léku Chant de Roxane eftir Szymanowski og einnig Prélude eftir Rachmaninoff sem flutt var í útsetningu Ruthar sjálfrar fyrir fiðlu og píanó.
Þ. 4. apríl 1952 hélt Ruth tónleika með Árna Kristjánssyni í Nýja bíói á Akureyri. Voru það fyrstu tónleikar hennar á Akureyri eftir að hún flutti suður.
Detlef Kraus, píanóleikari, sem mikið hafði leikið með Ruth í Þýskalandi, kom til Íslands og héldu þau  tónleika í Gamla bíói í mars 1953. Þau léku verk eftir Beethoven og Brahms og einnig lék Ruth Chaconnu Bachs, en Kraus lék Sinfónískar etýður eftir Schumann.
Ruth hafði mörg þekktustu verk fiðlubókmenntanna á efnisskrám sínum, t.d. fiðlukonserta eftir F.  Mendelsohn, M. Bruch, W. Amadeus Mozart og E. Lalo, einleiksverk J.S. Bachs m.a. Chaconnu, Sónötu C. Francks, sónötur eftir Beethoven, Mozart og Brahms auk fjölda smærri glæsiverka t.d. eftir Vitali og Wieniawsky.

Ruth Hermanns var frábær fiðluleikari og á fyrstu árum Sinfóníuhljómsveitarinnar kom hún þrisvar sinnum fram sem einleikari með hljómsveitinni. Þann 23. janúar 1951 lék Ruth Fiðlukonsert í g-moll eftir Max Bruch undir stjórn Victors Urbancic í Þjóðleikhúsinu, þ. 18. nóvember 1952 lék hún Fiðlukonsert í D-dúr KV 218 eftir Wolfgang Amadeus Mozart undir stjórn Olavs Kiellands í Austurbæjarbíói og þ. 25. febrúar 1954 lék hún Fiðlukonsert í e-moll eftir Felix Mendelsohn undir stjórn Róberts Abrahams Ottóssonar í Þjóðleikhúsinu.
Um flutning Ruthar og Sinfóníuhljómsveitarinnar skrifaði Þórarinn Jónsson í Alþýðublaðið 22. nóvember 1952: „Ruth Hermanns lék Mozart-konsertinn af undraverðum myndugleik, og þeim léttleika og svífandi innileika sem tónsmíðar hins vandmeðfarna meistara krefjast.“
Frá því Ruth fluttist til Reykjavíkur bauð hún upp á einkakennslu heima hjá sér.
Árið 1952 kom Laugarnesskólinn í Reykjavík á fót Fiðlusveit Laugarnesskólans og var Ruth fengin til að kenna börnunum. Þau sóttu tíma 1–3 í einu og síðan voru samæfingar. Fiðlusveitin kom bæði fram á tónleikum og skemmtunum í skólanum og á vortónleikum sem haldnir voru t.d. í Gamla bíói og Austurbæjarbíói. Þar komu nemendurnir fram sem einleikarar og í Fiðlusveitinni. Kennslu á vegum skólans var haldið áfram til 1959. Í nokkur ár eftir það kenndi Ruth bæði í Barnamúsikskólanum og í einkakennslu heima hjá sér.

Af um þrjátíu nemendum Ruthar í Fiðlusveit Laugarnesskólans lögðu sex tónlistina fyrir sig.
Þrír nemenda Ruthar Hermanns urðu fastráðnir fiðluleikarar í Sinfóníuhljómsveit Íslands: Gígja Jóhannsdóttir, Rut Ingólfsdóttir og Sólrún Garðarsdóttir.
Gígja var nemandi Ruthar á Akureyri og fluttist suður sautján ára til að halda áfram námi hjá Ruth. Gígja fór til framhaldsnáms í Vínarborg.
Rut Ingólfsdóttir byrjaði fimm ára í einkatímum hjá Ruth Hermanns og var einnig í Fiðlusveit Laugarnesskólans frá stofnun hennar. Rut lærði síðar hjá Einari G. Sveinbjörnssyni og Birni Ólafssyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Rut fór til framhaldsnáms í Malmö og Brussel.
Sólrún Garðarsdóttir byrjaði fiðlunám hjá Ruth í Fiðlusveit Laugarnesskólans og var undir hennar handleiðslu þar til hún fór til frekara náms í Freiburg í Breisgau.

Ruth fékk íslenskan ríkisborgararétt 1962 og var gert að breyta nafni sínu í Rut Stefanía Hermannsdóttir. Hún var þó alltaf þekkt sem Ruth Hermanns.
Ruth giftist Halldóri Hansen, yfirlækni, (1889–1975) árið 1962.
Ruth Hermanns var fastráðinn fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands 1950–1979. Sæti Ruthar í hljómsveitinni var á þriðja púlti í fyrstu fiðlu og var Óskar Cortes (1918-1965) sessunautur hennar meðan hans naut við.
Ruth þjáðist af liðagigt í höndum sem varð til þess að hún hætti störfum fyrr en ætlað var. Eftir starfslok kom Ruth iðulega á lokaæfingar hljómsveitarinnar í Háskólabíói og naut þess að hlusta á hljómsveitina og hitta vini sína í hléinu.

Ruth ferðaðist mikið um Evrópu á sumrin og sótti síðari árin oft tónlistarhátíðir t.d. í Salzburg og í Bayreuth. Frásagnir hennar frá nokkrum þessara ferða birtust í Lesbók Morgunblaðsins.

Í erfðaskrá sinni ánafnaði Ruth væntanlegu tónlistarhúsi í Reykjavík allar eigur sínar.

Ruth Hermanns lést í Reykjavík þ. 29. maí 1997 og er jarðsett í Hafnarfjarðarkirkjugarði.