15. úthlutun úr Styrktarsjóði samtaka um tónlistarhús og Ruthar Hermanns fór fram 5. desember 2024 í Háuloftum.
Alls bárust 44 umsóknir um styrki til tónleikahalds í sölum Hörpu árið 2025.
Sjóðurinn styrkti 18 verkefni og heildarupphæð styrkja var kr. 6.000.000.-
Styrkþegar fyrir árið 2025
Jazzklúbburinn Múlinn
Fjölbreytt og metnaðarfull dagskrá með um 40 viðburðum í Björtuloftum í Hörpu.
Dagskráin skiptist í þrennt; haust, vor og sumardagskrá.
Haukur Gröndal tók á móti styrknum.
Kammermúsíkklúbburinn
Klúbburinn hefur starfað frá áriniu 1957 og staðið að flutningi fjölmargra verka sem hefðu annars ekki haft vettvang hérlendis. Haldnir verða 6 tónleikar á starfsárinu með vel þekktri, nýrri og óþekktari kammertónlist.
Helgi Hafliðason tók á móti styrknum.
Kammersveit Reykjavíkur
Kammersveitin var stofnuð 1974 og hefur síðan haldið reglulega tónleika með kammertónlist, allt frá barokktímanum til nútímans. Haldnir verða fernir tónleikar á starfsárinu, þar af tvennir á haustönn 2025.
Hrafnkell Orri Egilsson tók á móti styrknum.
Myrkir Músíkdagar
Tónlistarhátíðin er ein elsta tónlistarhátíð landsins, stofnuð árið 1980 af Tónskáldafélagi Íslands. Markmið hátíðarinnar er að flytja og kynna nýja íslenska samtímatónlist og flytjendur í bland við kynningu á erlendum verkum og erlendum flytjendum. Hátíðin fer fram 24- 26. janúar 2025.
Bryndís Þórsdóttir tók á móti styrknum.
Óperudagar 2025
Óperudagar standa fyrir hátíðardagskrá í Hörpu í samstarfi við fjölmargt tónlistarfólk dagana 24. – 30 október 2025. Markmið Óperudaga er, auk þess að standa fyrir glæsilegri hátíð, að veita sem flestum sem starfa innan klassíska sönggeirans, tækifæri á að koma fram í Hörpu.
Maggí Sandholt tók á móti styrknum.
Reykjavík Early Music Festival 2025 – Alþjóðleg barokkhátíð í Hörpu
Reykjavík Early Music Festival er einstakur vettvangur fyrir samstarf íslenskra og erlendra tónlistarhópa sem sérhæfa sig í upprunaflutningi barokktónlistar. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Elfa Rún Kristinsdóttir, fiðluleikara. Hátíðin fer fram 14-17 apríl 2025.
Gunnhildur Daðadóttir tók á móti styrknum.
Tónlistarhátíðin Seigla
Seigla er tónlistarhátíð sem er haldin árlega aðra helgina í ágúst í Hörpu. Næst fer hún fram helgina 8.-10. ágúst 2025. Seigla er samfélagsmiðuð tónlistarhátíð og leggur áherslu á samtal og samstarf milli tónlistarfólks og tónleikagesta. Seigla beitir sér fyrir auknu aðgengi að klassískri tónlist á Íslandi, nýsköpun og stuðningi við íslenskt tónlistarfólk og tónlistarlíf.
Erna Vala Árnadóttir tók á móti styrknum.
Stórsveit Reykjavíkur
Fjölbreytt og metnaðarfull ársdagskrá Stórsveitar Reykjavíkur í Hörpu. Dagskráin býður fram nýja tónlist – bæði íslenska og erlenda, sögulega tónlist, tónlist fyrir börn, framsækna og metnaðarfulla tónlist, erlenda gesti, formlega tónleika og óformlegri.
Samúel Jón Samúelsson tók við styrknum.
State of the Art og Tónskáldahringekjan
Tónlistarhátíðin State of the the Art fer fram í annað sinn dagana 8.-12. október 2025 og mun einn af hápunktum hátíðarinnar verða tvískiptir tónleikar í Norðurljósum með Tónskáldahringekju og nýju dansverki sem er samið í samstarfi við tónskáldið Magnús Jóhann.
Viðtakandinn, Sverrir Páll Sverrisson, var forfallaður.
Bassaklarinetthátíð
Blásið verður til veglegrar bassaklarinettveislu í Hörpu þar sem saman koma allir bassaklarinettleikarar landsins og flytja fjölbreytta efnisskrá fyrir þessa einstöku og áhugaverðu hljóðfærasamsetningu.
Kristín Þóra Pétursdóttir tók við styrknum.
Haukur Gröndal
Í tilefni af 50 ára afmæli Hauks Gröndal heldur hann tvenna tónleika í Hörpu árið 2025. Frumsamið tónlistarævintýri verður fyrir yngstu hlustendurna auk afmælistónleika í Norðurljósasal þar sem leikinn verður jazz, heimstónlist og frumsamim tónlist.
Haukur Gröndal tók við styrknum.
Ítríó
Íslenska harmóníkutríóið ítríó fagnar 10 ára starfsafmæli með tónleikum í Norðurljósasal Hörpu. Tríóið skipa Jónas Ásgeir Ásgeirsson, Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir og Jón Þorsteinn Reynisson.
Finnur Karlsson tók við styrknum.
Lúðrasveit Hafnarfjarðar
Lúðrasveit Hafnarfjarðar fagnar 75 ára afmæli með tónleikum í Norðurljósum. Á efnisskránni er ný og gömul lúðrasveitatónlist. Sveitin var stofnuð 1950 og nú skipa hana um 45 blásarar og slagverksleikarar. Stjórnandi sveitarinnar er Rúnar Óskarsson.
Finnbogi Óskarsson tók á móti styrknum.
Strengjakvartettinn NOVO í Hörpu
Strengjakvartettinn NOVO var stofnaður í Kaupmannahöfn 2018. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna og er meðal eftirsóttustu kammerhópa sinnar kynslóðar. Hann kemur fram á Íslandi í fyrsta sinn í mars 2025 í Norðurljósum. Kvartettinn skipa fiðluleikararnir Kaya Kato Møller og Nikolai Vasili Nedergaard, víóluleikarinn Daniel Śledziński og sellóleikarinn Signe Ebstrup Bitsch.
Á efnisskránni eru spennandi verk Bacewicz, Beethoven og Schumann, auk kvintetts eftir Nielsen, þar sem víóluleikarinn Anna Elísabet Sigurðardóttir leikur með kvartettinum.
Þórhildur Magnúsdóttir tók við styrknum.
Björg Brjánsdóttir – Flökt
Flökt er yfirskrift dúótónleika Bjargar Brjánsdóttur flautuleikara og Richards Schwennicke píanóleikara. Tónleikarnir einkennast af flökti og fuglasöng franskra tónskálda. Flutt verða verk eftir Debussy, Ravel, Messiaen, Dutilleux og Levinas.
Bryndís Þórsdóttir tók við styrknum.
Jóhann Kristinsson – Die Schöne Müllerin
Þann 16.mars 2025 munu baritónsöngvarinn Jóhann Kristinson og píanóleikarinn Ammiel Bushakevitz flytja ljóðaflokkinn „Malarastúlkuna fögru“ eftir Franz Schubert í Norðurljósum.
Kristinn Sigmundsson tók á móti styrknum.
Kristjana Arngrímsdóttir – ásamt portúgalska Fado-gítarleikaranum Bruno Chaveiro
Kristjana frumflytur eigin tónlist og nýjar útsetningar á íslenskri tónlist í Kaldalóni haustið 2025. Efnisskráin verður tileinkuð hausti og vetri ásamt blæbrigðum Fado-tónlistarinnar.
Jón Rafnsson tók á móti styrknum.
Sönghópurinn Kyrja – Sungið í minningu látinna.
Sönghópurinn Kyrja mun flytja verkið All-Night Vigil (Vespers) eftir Rachmaninoff í Norðurljósum á Allraheilagramessu 2.nóvember 2025. Flutningurinn verður tileinkaður minningu látinna og tónleikagestir taka þátt með viðveru sinni. Listrænir stjórnendur eru Philip Barkhudarov and Sólveig Sigurðardóttir
Philip Barkhudarov og Sólveig Sigurðardóttir tóku á móti styrknum.