Saga Samtaka um tónlistarhús.
Hér verður stiklað á stóru um sögu báráttu tónlistaráhugamanna fyrir tónlistarhúsi í Reykjavík sem frá 1983 var samofin sögu “Samtaka um byggingu tónlistarhúss”, síðar “Samtaka um tónlistarhús”.
Saga baráttu Íslendinga fyrir byggingu tónlistarhúss nær aftur fyrir miðja síðustu öld. Þá birti vikublaðið Vísir yfirlýsingu forsvarsmanna tónlistarlífs á Íslandi, með Pál Ísólfsson í fararbroddi, þess efnis að nauðsynlegt væri að byggja tónlistarhöll í Reykjavík.
“Samtök um byggingu tónlistarhús” voru stofnuð árið 1983 og fyrsti formaður samtakanna var Ármann Örn Ármannsson. Þegar var kosin var 9 manna stjórn ásamt 60 manna fulltrúaráði og þar áttu sæti fulltrúar helstu félagasamtaka sem tengdust tónlist á einhvern hátt. Öflug fjáröflun hófst þegar, sem fólst í tónleikahaldi, happadrætti og söfnun styrktaraðila. Tónlistarmenn komu myndarlega að verkefninu og gáfu vinnu sína til hvers kyns fjáraflana á vegum samtakanna.
Samnorræn arkitektasamkeppni um hönnun tónlistarhúss var haldinn skömmu eftir stofnun samtakanna og var aðal viðfangsefni þeirra á árunum 1985 til 1987 og varð Guðmundur Jónsson arkitekt hlutskarpastur. Samkeppnin reyndist samtökunum dýr en hins vegar má líta svo á að hún hafi markaðssett hugmyndina um tónlistarhús meðal almennings og ráðamanna. Til að fjármagna samkeppnina var meðal annars farið út í stólasölu og er nú veglegur skjöldur í andyri Hörpu með áletruðum nöfnum þeirra sem keyptu stóla í tónlistarhúsinu.
Reykjavíkurborg úthlutaði samtökunum lóð í Laugardalnum árið 1988 og gaf eftir öll gjöld. Á sama tíma einbeitti stjórn samtakanna sér að því að safna kröftum eftir arkitektasamkeppnina. Breytingar í pólitísku umhverfi samtakanna ollu því að það hægði á starfsemi þeirra næstu fjögur árin.
Árið 1992 var Valgeir Guðjónsson tónlistarmaður kosinn formaður samtakanna og var nú haldið áfram að vekja athygli á baráttu samtakanna fyrir tónlistarhúsi ásamt því sem tónleikahald á vegum þeirra jókst aftur. Jazztónleikar voru haldnir í Perlunni og árið eftir voru einnig haldnir þar Galadansleikir á vegum samtakanna með þáttöku Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sömuleiðis vakti “Tenóraveislan” í Kaplakrika mikla athygli. Samfara auknu tónleikahaldi var aukinn kraftur lagður í söfnun styrktaraðila. Árið 1994 var “Lifun”, tónverk hljómsveitarinnar Trúbrot, gefið út á geisladiski í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands í samvinnu við Íslenska poppara. Þegar horft er til baka er ljóst að með útgáfu Lifunnar var brotið blað í sögu íslensks tónlistarlífs þar sem klassíkst menntað tónlistarfólk og alþýðutónlistarfólk lék í fyrsta sinn hlið við hlið.
Ingi R. Helgason var kosinn formaður samtakanna árið 1994 og gengdi því embætti í rúmlega eitt ár þar til Stefán P. Eggertsson verkfræðingur var kjörinn formaður á aðalfundi samtakanna árið eftir. Það rofaði til í pólitísku umhverfi samtakanna og Björn Bjarnason þáverandi menntamálaráðherra gaf út þá yfirlýsingu að hann myndi beita sér fyrir því að ákvörðun um tónlistarhús yrði tekið á kjörtímabilinu og var staðið við þá yfirlýsingu. Sama ár gáfu Gunnar Kvaran sellóleikari og Gísli Magnússon píanóleikari út geisladisk til styrktar Samtökunum. Nafni samtakanna var breytt úr “Samtök um byggingu tónlistarhúss” í “Samtök um tónlistarhús” og ljóst að verkefni af þessari stærðargráðu yrði ekki unnið af félagasamtökum heldur þyrftu ríki og borg að koma myndarlega að málinu.
”Nefnd um málefni tónlistarhúss” var skipuð í byrjun árs 1996 af Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra. Í nefndinni voru Stefán P. Eggertsson formaður, tilnefndur af ”Samtökum um tónlistarhús”, Jón Bjarnason framkvæmdarstjóri, tilnefndur af Reykjavíkurborg, ásamt Önnu Soffíu Hauksdóttur verkfræðingi og Pálma Gíslasyni útibússtjóra sem skipuð voru án tilnefninga. Frá árinu 1996 tóku samtökin virkan þátt í vinnu stjórnvalda við að skoða forsendur þess að reisa tónlistarhús. Samtökin unnu náið með “Nefnd um tónlistarhús” en framkvæmdastjóri samtakanna var jafnframt starfsmaður nefndarinnar. Samtökin gerðu ennfremur þjónustusamning við Félag íslenskra hljómlistarmanna sem hýsti starfsemi þeirra frá 1997 til 2012.
”Nefnd um tónlistarhúss” skilaði álitsgerð árið 1997 og var sú skýrsla unnin í samráði við stjórn Samtaka um tónlistarhús. Í framhaldi birtingar skýrslunnar samþykkti ríkisstjórnin tillögu menntamálaráðherra um að fengið yrði sérfræðilegt mat á þremur hugmyndum að tónlistarhúsi. Menntamálaráðherra beitti sér fyrir því að ríki, Reykjavíkurborg og eigendur Hótels Sögu stæðu straum af kostnaði við matið að höfðu samráði við Samtökin. Reykjavíkurborg óskaði ennfremur eftir því að lagt yrði mat á kosti og galla þess að staðsetja húsið í miðbænum. Verkið var í umsjá stýrihóps sem skipaður var Steindóri Guðmundssyni frá Framkvæmdasýslu Ríkissins, Stefáni Hermannssyni borgarverkfræðingi og Hauki Halldórssyni frá Hóteli Sögu. Sama ár ánafnaði Ruth Hermanns fyrrverandi fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands tónlistarhúsi öllum eigum sínum samkvæmt erfðaskrá.
Stýrihópurinn skilaði af sér skýrslunni “Tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð – nýtingar og hagkvæmismat” þann 5. janúar 1998. Þar var lagt til að húsið yrði byggt í miðbæ Reykjavíkur og í kjölfarið skiluðu ”Samtök um tónlistarhús” lóðinni í Laugardalnum sem þau höfðu fengið úthlutað frá Reykjavíkurborg tíu árum áður. Skýrslan var unnin af VSÓ í samráði við stjórn samtakanna.
Nákvæmlega ári síðar, eða 5. janúar 1999 tilkynntu stjórnvöld ákvörðun um byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss í miðborg Reykjavíkur á sameiginlegum fréttafundi Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra og Halldórs Blöndal samgöngumálaráðherra í Háskólabíói.
Í kjölfar ákvörðunar um byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss var skipuð sameiginleg nefnd menntamálaráðherra, samgönguráðherra og borgarstjóra. Formaður nefndarinnar var Ólafur B.Thors en aðrir nefndarmenn voru; Þórhallur Arason, tilnefndur af fjármálaráðherra, Magnús Gunnarsson, tilnefndur af Samgöngumálaráðherra, en Reykjavíkurborg tilnefndi Helgu Jónsdóttur, Stefán Hermannsson og Þorvald S. Þorvaldsson. Formaður nefndarinnar, Ólafur B. Thors, var öllum hnútum kunnugur um málefni tónlistarhúss enda hafði hann setið í stjórn samtakanna um árabil. Hlutverk nefndarinnar var að vinna að samkomulagi milli ríkis og Reykjavíkurborgar um fjármögnun, tilhögun og kostnaðarskiptingu vegna tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar. Auk þess hafði hún það hlutverk að vinna að því að fá fjárfesta og rekstaraðila að Hóteli.
Í byrjun árs 1999 gáfu samtökin út geisladiskinn “Til Elísu” með píanóleikaranum Jónasi Þóri sem gaf vinnu sína við gerð disksins, en Félag íslenskra hljómlistarmanna lagði til til hljóðver og tæknimann. Diskurinn var eingöngu gefinn styrktaraðilum samtakanna og var ekki til sölu á opinberum markaði. Í desember sama ár opnuðu samtökin heimasíðu fyrir þá sem vildu kynna sér samtökin og málefni tónlistarhúss á netinu.
Í apríl 2002 var samkomulag undirritað milli ríkis og borgar um byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss og var í samkomulaginu stefnt að því að verkinu yrði lokið í árslok 2006. Verkið yrði unnið í einkaframkvæmd og stýrt af hlutafélagi eftir útboð einkaframkvæmdar. Sama ár var Egill Ólafsson tónlistarmaður kosinn formaður samtakanna og tók við af Stefáni P. Eggertssyni verkfræðingi sem hafði gegnt formennsku frá 1995.
Nýkjörinn formaður samtakanna var í kjölfarið skipaður í samráðsnefnd væntanlegra notenda hússins sem tók til starfa árið 2003. Á þeim fundum gat formaður samtakanna komið skoðunum stjórnarmanna um málefni tónlistarhúss á framfæri.
Þegar ákvörðunin um byggingu tónlistarhúss lá fyrir má segja að starfsemi samtakanna hafi að mestu lagst af þar sem tónlistarhúsið var að verða að veruleika. Einhugur var hins vegar innan stjórnarinnar um að samtökin hefðu tilgang þar til húsið hefði risið, það er, að verja hagsmuni tónlistarinnar í húsinu.
Eftir margra ára baráttu, sem á köflum virtist harla vonlaus, var húsið loks að verða að veruleika. Samtökin höfðu í hartnær 30 ár haldið úti starfsemi sem fólst eins og áður sagði í tónleikahaldi, happadrætti, útgáfu, söfnun styrktaraðila, útsendingu minningarkorta. Árlega sendu samtökin félagsmönnum fréttabréf og ótaldar eru allar þær blaðagreinar sem ritaðar voru af stjórn og áhugamönnum um málefni tónlistarhúss, baráttunni til stuðnings. Ótal kynningarfundir voru að baki með félagsmönnum svo og sérfræðingum sem ráðnir höfðu verið til þess að hanna húsið. Nú var allt þetta að baki og raunveruleikinn blasti við. Það átti að reisa fjölnota tónlistarhús sem yrði heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands ásamt því að henta hvers kyns tónlistarflutningi.
Spurningar vöknuðu um það hvernig eignum samtakanna yrði best ráðstafað þar sem ljóst var að um einkaframkvæmd og einkarestur yrði að ræða. Því var ákvörðunin um ”Styrktarsjóð Samtaka um tónlistarhús og Ruthar Hermanns” til umfjöllunar á byggingartíma hússins, þar til endanleg skipulagsskrá sjóðsins var fullmótuð í byrjun árs 2011.
Fjárhagshrunið í október 2008 hafði sín áhrif á ”Samtök um tónlistarhús” eins og önnur félög og stofnanir í landinu. Stjórn samtakanna hafði hins vegar alltaf haft að leiðarljósi að ávaxta eignir samtakanna með lágmarksáhættu í huga og því var fjárhagslegt tap óverulegt. Hrunið seinkaði byggingarframkvæmdum og olli óvissu um framtíð tónlistarhúss, en til allrar hamingju var verkinu að mestu lokið um mitt ár 2011 og Harpa tekin í notkun.
Það var því mikið ánægjuefni þegar samtökin gátu boðið styrktaraðilum sínum á tónleika í Hörpu í september 2011 þar sem ”Samtök um tónlistarhús” voru lögð niður og ”Styrktarsjóður Samtaka um tónlistarhús og Ruthar Hermanns” tók til starfa og tilkynnti þrjá fyrstu styrkþegana úr sjóðnum.
Sigurgeir Sigmundsson, júní 2012.
Samantekt um sögu Samtaka um tónlistarhús
- Áhugamenn stofnuðu Samtök um bygginug tónlistarhúss. Hugmynd þeirra var að reisa húsið fyrir söfnunarfé almennings. Borgin gaf vilyrði fyrir lóð á tilteknum stað í Laugardal. Komið var á alþjóðlegri arkitekta-samkeppni um hönnun hússins og vinningstillaga valin. Ekkert varð þó af framkvæmdum þar sem borgin gat ekki staðið við áðurgefin loforð um lóð. Þá var ekki eining um staðarval innan Samtakanna, því fór sem fór.
- Grunnur var lagður að fjárhagslegum grundvelli samtakanna, á árunum 1993 til 1997, með söfnun þúsunda styrktaraðila sem hafa að jafnaði greitt 250 krónur á mánuði til samtakanna. Sá grundvöllur var tryggður áfram með stuðningi nær þriðjungs upphaflegra styrktaraðila allt þar til að samtökin hættu starfssemi 2011.
- Samtökin unnu með ríki og borg að undirbúningi þess er síðar verður kynnt sem bygging ráðstefnu-og tónlistarhúss í Reykjavík. Samtökin eru á hliðarlínunni með fulltrúa til álitsgjafar í Samráðsnefnd væntanlegra notenda hússins. Þar sem verkefnið tónlistarhús er á góðri siglingu. Samtökin boðuðu til kynningarfunda og greindu frá áformum um staðsetningu og stærð tónlistarsala hússins . Starfsemi samtakanna drógst saman út á við en engu að síður eru haldnir reglulegir fundir enda er stjórn
Samtakanna á því að rétt sé og skylt að starfa áfram og gæta hagsmuna tónlistarinnar í hönnun á nýju væntanlegu húsi. - Á þeim 29 árum sem samtökin hafa starfað hafa tugþúsundir íslendinga lagt málefnum tónlistarhúss lið með beinum og óbeinum hætti enda hafa óformlegar kannanir fjölmiðla sýnt að meirihluti þjóðar styður byggingu tónlistarhúss. Fyrrverandi stjórn Samtaka um tónlistarhús vill koma þakklæti á framfæri til allra þeirra sem sýndu “Samtökum um tónlistarhús” stuðning í verki á liðnum áratugum. Með stofnun styrktarsjóðs SUT og Ruthar Hermanns eru fyrrum peningar Samtakanna orðnir að styrktarsjóði fyrir tónleikahald í nýju tónlistarhúsi. Það er mat fyrverandi stjórnar að betur verður þessum peningum fyrrum velunnara Samtakanna ekki varið.
Egill Ólafsson, júlí 2012